Innlent

VG segja samstöðu ekki náð um stækkun álbræðslu

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. MYND/Vísir

Vinstri grænir í Hafnarfirði hafna því að það sé þverpólitísk samstaða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þeir mótmæla því harðlega yfirlýsingu bæjarstjóra Hafnarfjarðar þar að lútandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórnarflokki og stjórn Vinstri grænna.

Í tilkynningunni segir að „Hið sanna í málinu er að fulltrúar VG hafa ásamt fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, komið að skipulagsvinnu sem meðal annars lýtur að starfs- og mengunarskilyrðum stóriðju innan bæjarmarkanna. VG hefur hins vegar tekið afdráttarlausa afstöðu gegn stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þessi afstaða hefur ítrekað komið fram af hálfu fulltrúa VG innan bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og annars staðar á opinberum vettvangi.

Þetta er bæjarstjóra Hafnarfjarðar fullkunnugt um. Fréttaflutningur í dag 24.janúar á rætur að rekja til fréttamannafundar sem efnt var til í dag þar sem bæjarstjóri tekur þá afstöðu að rangtúlka álit starfshóps skipulags og byggingaráðs Hafnarfjarðar um hugsanlega stækkun álbræðslunnar, Alcan og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar í hag.

Bæjarstjórinn setur samasemmerki á milli deiliskipulagsvinnu annars vegar og fylgispektar við stækkun álbræðslunnar hins vegar. Það sýnir hve fráleit þessi tenging er í kosningum um stækkunina. Afstaða VG hefur verið og er að kjósendur eigi að standa frammi fyrir skýrum valkostum um þetta mikilvæga mál og kjósa um stækkun álbræðslunnar en ekki deiliskipulag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×