Innlent

Vill sjá uppbyggingu húsanna

Pétur H. Ármannsson segir alls ekki koma til greina að reisa nútímaleg hús í stað þeirra sem brunnu.
Pétur H. Ármannsson segir alls ekki koma til greina að reisa nútímaleg hús í stað þeirra sem brunnu. MYND/gva
„Ég vonast að sjálfsögðu til þess að þessi hús fái að vera áfram í borgarmynd Reykjavíkur eins og borgarstjóri hefur gefið til kynna,“ segir Pétur Ármannsson arkitekt og leggur til að húsin verði endurbyggð í upprunalegri mynd. „Það á sérstaklega við um húsið við Austurstræti 22. Það hefur ekki verið mikið augnayndi undanfarin ár og því ætti að endurreisa það eins og það var fyrir árið 1905 eða þegar landsréttur var til húsa þar,“ segir Pétur og bætir því við að húsið hafi verið ákaflega fallegt áður en því var breytt. „Það eru ýmsir möguleikar þarna. Það kæmi til dæmis til greina að nýta baklóðina betur og búa til einhvers konar garð þar,“ segir Pétur.

Pétur segir alls ekki koma til greina að byggja nútímalegar byggingar á reitnum. „Þetta er allt of mikilvæg götumynd til þess að eyðileggja hana með þeim hætti. Þetta horn er hluti af umhverfi stjórnarráðsins og Bernhöftstorfunnar. Það er líka mikilvægt að þarna rísi ekki háhýsi því þá næði sólin ekki að skína niður á Lækjartorg og Austurstræti yrði heldur dimm og óspennandi gata,“ segir Pétur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×