Erlent

Óákveðnir gætu ráðið úrslitum

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á sunnudag, en formlegri kosningabaráttu lýkur í kvöld. Þótt kannanir bendi til að kosið verði á milli þeirra Nicolas Sarkozy og Segolene Royal í síðari umferðinni gæti fjöldi óákveðinna kjósenda sett strik í reikninginn.

Á miðnætti gengur í gildi í Frakklandi bann við birtingu skoðanakannana og kosningaáróðurs og því má segja að dagurinn í dag hafi verið sá síðasti sem eiginleg kosningabarátta fer fram, nema náttúrlega fyrir þá tvo frambjóðendur sem komast í aðra umferðina 6. maí næstkomandi. Flest bendir til að það verði þau Nicolas Sarkozy og Segolene Royal því samkvæmt þeim könnunum sem birtar hafa verið undanfarinn sólarhring mun Sarkozy fá um 28 prósent atkvæða, Royal 24 prósent, miðjumaðurinn Francois Bayrou tæp tuttugu og hinn umdeildi Jean Marie Le Pen fimmtán. Sarkozy ákvað að eyða lokadegi baráttunnar fjarri skarkala borgarlífsins, á nautabúgarði í suðurhluta Frakklands, nánar tiltekið.

Meðan Sarkozy var í sveitinni eyddi Royal deginum í höfuðborginni París. Þar vildi hún engu spá um lyktir kosninganna heldur svaraði spurningum þar að lútandi í véfréttarstíl.

Þótt forskot þeirra Sarko og Sego virðist mikið er hið sama að segja um fjölda óákveðinna. Hátt í fjörtíu prósent kjósenda eiga enn eftir að gera upp hug sinn og því er ekki loku fyrir það skotið að Bayrou eða jafnvel Le Pen geti velgt öðru hvoru þeirra undir uggum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×