Erlent

Fordæma matreiðslumenn

Guðjón Helgason skrifar

Dýravinir hafa fordæmt matreiðslumeistara í Taívan sem hafa tekið upp á því að djúpsteikja vatnakarfa og bera fram lifandi. Gestir gæða sér á honum um leið og hausinn á fisknum kippist til. Herramanns matur segja sumir, villimennska telja aðrir.

Matreiðslumeistarinn dýfir vatnakarfanum ofan í djúpsteikingarpottinn en lætur hausinn standa upp úr. Síðan er hann borinn fram með súrsætri sósu og sojasósu. Gestir plokka svo stykki úr fiskinum og borða með bestu list. Á meðan kippist hausinn á vatnakarfanum til og frá. Fiskurinn lifir í hálftíma eftir steikningu og því þarf að bera hann fram hið fyrsta svo hægt sé að borða hann eins og á þann máta sem lagt sé upp með.

Dýravinir í Taívan eru slegnir óhug vegna þessarar nýju mat- og framreiðsluaðferðar. Liu Shian-lan, formaður umhverfis- og dýraverndunarsamtaka í Taívan, segir fiskinn hryggdýr sem þýði að hann sé viðkvæmur fyrir sársauka. Hann þjáist því mikið. Auðvitað segir hún erfitt að komast hjá því að drepa til matar en dýr eigi ekki að bera fram lifandi á matardiskum.

Matreiðslumeistarar í borginni Chiayi í Suður-Taívan blása á þessa gagnrýni. Segja þetta vel þekkta aðferð og vinsæla í Kína. Þetta sé gert til að sýna viðskiptavinum hve ferskur fiskurinn sé sem þeir fá á diskinn.

Ekki eru allir matreiðslumenn í Taívan viljugir til að bera fisk á borð með þessum hætti. Sumir segja ekki réttlætanlegt að beita þessari aðferð, hún sé grimmileg.

Yfirvöld í Chiayi ætla nú að gera hvað þau geta til að fá matreiðslumenn þar til að taka fisk sem matreiddur er með þessum hætti af matseðlum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×