Innlent

Á annað þúsund ökutæki kolefnisjafna útblástur sinn

Á annað þúsund ökutæki á vegum fyrirtækja og einstaklinga hafa kolefnisjafnað útblástur sinn. Rúmlega sextíu þúsund tré verða gróðursett á Geitasandi sem er fyrsta skógtæktarland fyrir kolviðaskóga hér á landi. Ef kolefnisjafna ætti alla bíla á Íslandi þyrfti að gróðursetja um sjö milljónir trjáa á ári. 



Kolviður er sjóður í eigu Landverndar og Skógræktarfélags Íslands sem miðar að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Kolviðarskógar eru skógar ræktaðir til að sporna við uppsöfnun koldíoxíðs (CO2) í andrúmsloftinu.

Viðskiptavinir Kolviðar kaupa kolefnisbindingu til þess jafna útblástursmengun ökutækja sinna.  Nú þegar hafa á annað þúsund bifreiðir verið skráðar á vefinn kolvidur.is. Það þýðir að rúmlega sextíu þúsund tré verða gróðursett á Geitasandi sem er kolviðaskógur Landverndar og Skógræktarfélags Íslands. En betur má ef duga skal segir Soffía Waag Árnadóttir framkvæmdastjóri Kolviðar. Hátt í sjö milljónir trjáa þurfi að gróðursetja á ári til að kolefnisjafna allan bílaflotann í Íslandi.



Reiknilíkan er á vefsíðu Kolviðar sem reiknar út hversu mörg tré þurfi að gróðursetja til að kolefnisjafna útblástur hverrar bifreiðar. Reiknilíkanið býður viðskiptavinum að leggja fé í sjóðinn sem síðan fjármagnar gróðursetningu trjáanna.  Vika er frá því vefurinn www.kolviður.is var opnaður. Soffía segir viðbrögð almennings hafa farið fram úr björtustu vonum og segist hafa mikla trú á því að sjö milljóna trjáa markið náist innan skamms. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×