Erlent

Demókratar ógna innflytjendafrumvarpi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/AFP

Öldungardeildarþing Bandaríkjanna mun í dag ræða og greiða atkvæði um tvær breytingartillögur demókrata á innflytjendafrumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu. Í síðustu viku féllst George Bush Bandaríkjaforseti á tveggja flokka málamiðlunartillögu sem var þrjá mánuði í undirbúningi. Afgreiðslu á frumvarpinu hefur verið frestað um tvær vikur á meðan þingið fjallar um það.

Frumvarpið felur í sér áætlun sem gæti veitt 12 milljónum ólöglegra innflytjenda kost á ríkisborgararétti. Það gerir einnig ráð fyrir auknu landamæraeftirliti og opnar möguleika á tveggja ára dvalar- og atvinnuleyfi fyrir 400 þúsund manns.

Breytingartillögur demókrata myndu strika alfarið út möguleikann á dvalar-og atvinnuleyfi fyrir gesti og skipta áætluninni í tvennt. Þeir telja einnig að áætlunin haldi lágmarkslaunum niðri og stuðli endanlega að lágri stétt innflytjenda.

Repúblíkanar eru hins vegar fylgjandi gesta-atvinnuáætlun þar sem fyrirtæki þurfi á vinnuaflinu að halda.

Báðar deildir þingsins þurfa að samþykkja frumvarpið svo það verði að lögum.

Þingmenn fylgjandi frumvarpinu vona að það fái hraðan framgang og verði samþykkt án þess að tengjast áherslumálum í komandi forsetakosningum í nóvember 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×