Bakgarðurinn við fyrirhugað heimili fyrir húsnæðislausa á Njálsgötunni verður segull á ógæfumenn miðborgarinnar, segir íbúi við Njálsgötu. Íbúar fjölmenntu nú síðdegis á fund sem borgin hélt um málið. Borgarstjóri boðaði þar samráðshóp með fulltrúum íbúa.
Borgin keypti nýlega gistiheimilið Centrum á Njálsgötu 74 og ætlar að breyta í heimili fyrir tíu heimilislausa karlmenn. Íbúar við Njálsgötu hafa brugðist illa við þessari fyrirætlan, safnað undirskriftum, sett upp bloggsíðu og krafist fundar með yfirvöldum. Sá fundur hófst nú klukkan fimm.