Erlent

Múslimar hafna sjálfsmorðsárásum -og Bin Laden

Óli Tynes skrifar
Meirihluti múslima er á móti sjálfsmorðsárásum.
Meirihluti múslima er á móti sjálfsmorðsárásum.

Fáir múslimar styðja sjálfsmorðsárásir samkvæmt nýrri alþjóðlegri könnun sem sagt er frá á fréttavef BBC. Úrtakið var 45 þúsund manns í 47 löndum. Þar hafði stuðningur múslima allsstaðar minnkað nema í Palestínu. Stuðningur við Osama bin-Laden hefur einnig minnkað verulega.

Í múslimaríkjum eins og Líbanon, Bangladesh, Jórdaníu, Pakistan og Indónesíu hefur stuðningur við sjálfsmorðsárásir minnkað um meira en helming frá árinu 2002. Indónesía er fjölmennasta múslimríki heims. Þar er stuðningur við slíkar árásir innan við 10 prósent.

Sömu sögu er að segja um Osama bin-Laden. Í Jórdaníu sögðust aðeins 20 prósent bera mikið eða eitthvað traust til hryðjuverkamannsins. Sú tala var 56 prósent fyrir fjórum árum. Könnunin bendir til þess að fólk í þáttökulöndunum líti á Bandaríkin sem vinsamlegasta land í heimi, en einnig það sem helst beri að óttast.

Múslimar hafa hinsvegar verulegar áhyggjur af átökum milli súnní og sjía múslima í Írak, og óttast að þau kunni að breiðast út.

Palestínumenn eru sér á báti í þessari könnun. Þar virðist stuðningur við sjálfsmorðsárásir vera yfir 70 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×