Erlent

Hataði hann og myrti

Hæstiréttur í Suður-Afríku hefur nú til meðferðar mál gegn morðingjum Gísla Þorkelssonar, sem myrtur var á hrottafenginn hátt þar í landi sumarið 2005. Aðalsakborningurinn hefur játað að hafa skotið hann en gengst ekki við því að morðið hafi verið framið að yfirlögðu ráði.

Hæstiréttur í Jóhannesarborg hefur til meðferðar mál fjögurra sem ákærð hafa verið vegna málsins. Sá sem hefur játað að hafa tekið í gikkinn heitir Willie Theron. Vitorðsmaður hans Desiree Oberholzer var í héraðsdómi dæmd í tuttugu ára fangelsi og fer mál hennar ekki til Hæstaréttar. Gísla mun hafa verið hlýtt til Therons en væntumþykjan ekki endurgoldin. Theron hafi hatað Gísla og lagt á ráðin um að myrða hann löngu áður en ódæðið var svo framið.

Sam Seena, lögregluforingi í Boksburg, fór fyrir rannsókn málsins. Hann segir að Theron og Oberholzer hafi sótt Gísla á flugvöllinn þegar hann var að koma frá Bandaríkjunum og farið með hann á afvikinn stað og myrt hann. Seenan segir að Theron og Oberholzer hafi ekið með líkið um Boksburg. Degi síðar hafi þau síðan keypt tunnu og steypu, steypt líkið í tunnuna og falið í húsi í Boksburg.

Theron hefur viðurkennt að hafa skotið Gísla en ekki gengist við því að um morð að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða. Málinu gegn honum hefur verið frestað fram til 21. maí næstkomandi, en þá verður hann yfirheyrður og mun þá væntanlega gefa skýringu á því undir hvaða kringumstæðum hann hafi tekið í gikkinn. Dóms er að vænta skömmu eftir yfirheyrsluna.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringaþættinum Kompási.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×