Erlent

Demókratar vara Bush við

Demókratar á Bandaríkjaþingi hvetja Bush-stjórnina til að sýna aðgát þegar Íranar eru sakaðir um að ýta undir ofbeldi í Írak með vopnasmygli og fjármögnun uppreisnarhópa. Öruggar sannanir vanti og ekki sé góð reynsla af því að taka ákvarðanir sem byggi á vafasömum sönnunargögnum.

Breska blaðið Guardian hafi eftir heimildarmönnum um liðna helgi að undirbúningur að hernaðaraðgerðum í Íran væri langt kominn innan bandaríska stjórnkerfisins og ætti að geta hafist með vorinu. Demókratar á Bandaríkjaþingi sem voru gestir í pólítískum spjallþáttum bandarísku sjónvarpsstöðvanna í gær hvöttu Bandaríkjaforseta og ráðgjafa hans til að stíga varlega til jarðar. Engar öruggar sannanir væru til um hlutdeild Írana í ofbeldisöldunni í Írak. Auk þess bentu þeir á að hjá bandarískum stjórnvöldum væri ekki góð reynsla af því að taka ákvarðanir sem byggðu á vafasömum sönnunargögnum.

Chris Dodd öldungardeildarþingmaður demókrata benti á að Bush-stjórnin hefði gerst uppvís að fölsun sönnunargagna áður - og vísaði þá til aðdraganda Íraksstríðsins. Hann sagðist ekki efast um að Íranar hefðu á einhverju stigi aðstoðað uppreisnarmenn í Írak og það vandamál þyrfti að ræða en sagðist aftur órólegur yfir því að nú væri reynt að búa til ástæðu fyrir hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Íran.

Fulltrúar Bandaríkjahers í Írak gerðu fréttamönnum í gær grein fyrir þeim gögnum sem sögð eru renna stoðum undir fullyrðingar um stuðning Írana við andspyrnumenn í Írak. Upptökur voru ekki leyfðar. Vopn voru sýnd sem fullyrt var að hægt væri að rekja til Írans. Vopn sem þessu hefðu dregið rúmlega hundrað og sjötíu bandaríska hermenn til dauða í Írak síðan í júní 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×