Erlent

Þýskur hryðjuverkamaður fær reynslulausn

Þýskur dómstóll hefur ákveðið að láta Birgitte Mohnhaupt, einn forsprakka Rauðu herdeilda Baader-Meinhof, lausa úr fangelsi þar sem hún hefur mátt dúsa í nær aldarfjórðung. Ákvörðunin hefur þegar vakið deilur enda var Monhaupt á sínum tíma lýst sem hættulegustu konu Þýskalands.

Það voru þau Andreas Baader og Ulrike Meinhof sem stofnuðu Baader-Meinhof hryðjuverkahópinn seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Hópurinn spratt úr grasrót stúdentamótmæla og andstöðu við Víetnamstríðið. Ulrike og Andreas fyrirfóru sér þegar þau voru handtekin árið 1977 en Mohnhaupt var fulltrúi annarar kynslóðar í hryðjuverkasamtökunum.

Árið 1982 voru Mohnhaupt og Christian Klar dæmd í fimmfalt lífstíðarfangelsi fyrir mannrán, morð og hermdarverk. Samkvæmt ákvörðun dómsins frá í dag verður hún látin laus í lok næsta mánaðar og gert að halda skilorð í fimm ár.

Talskona dómstólsins segir forsendur reynslulausnar uppfylltar og ekki um náðun að ræða. Auk þess séu Mohnhaupt ekki talin ógn við umhverfi sitt lengur þó hún iðrist einskis og hafi á sínum tíma verið sögð illskan holdi klædd og hættulegasta kona Þýskalands.

Klaus Pfieger, saksóknari, segir þessa ákvörðun vissulega umdeilda en mikilvægt sé að meðhöndla Mohnhaupt og Klar sem hverja aðra glæpamenn. Yrði annað gert væri hætt við að hún yrði álitin stríðsfangi af stuðningsmönnum hennar. Þetta sé ein ástæða þess að hún fái reynslulausn. Klaus segir vissulega ljóst að þeir sem hafi staðið nærri fórnarlömbum henna eigi erfitt með að sjá hana strjúka um fjálst höfuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×