Erlent

Heilbrigðisstarfsfólkið náðað

Forseti Búlgaríu náðaði sex heilbrigðisstarfsmenn um leið og þeir komu til Búlgaríu frá Líbýu í dag. Þar höfðu þeir setið í fangelsi í átta ár. Líbýumenn fá bæði mikið fé og aukin stjórnmálatengsl fyrir að sleppa fólkinu.

Hjúkrunarfólkið var fimm búlgarskar hjúkrunarkonur og læknir ættaður frá Palestínu. Yfirvöld í Líbýu segja að þau hafi játað að hafa vísvitandi sýkt meira en 400 libysk börn af alnæmi. Þau voru fyrst dæmd til dauða en þeim dómi svo breytt í ævilangt fangelsi.

Hjúkrunarfólkið hélt hinsvegar fram sakleysi sínu fyrir rétti og sagði að játningarnar hefðu verið þvingaðar út úr því með pyntingum. Óháðir vísindamenn sem könnuðu málið telja að börnin hafi verið orðin sýkt áður en fólkið hóf störf við viðkomandi sjúkrahús.

Miklar samningaviðræður hafa staðið yfir við Líbýumenn undanfarin misseri og frekar óljóst hvað þeir fengu fyrir að sleppa fólkinu úr haldi. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hélt því fram í dag að ekkert lausnargjald hefði verið greitt.

Hitt er ljóst að Líbýumenn fá bæði mörghundruð milljónir dollara og sömuleiðis aukna pólitíska viðurkenningu hjá Evrópusambandinu. Fullt stjórnmálasamband var krafa sem þeir lögðu fram á síðustu metrunum.

Ætlunin mun hafa verið að hjúkrunarfólkið tæki út lífstíðar fangelsisdóma sína í Búlgaríu. Af því verður þó ekki. Meðal þeirra sem mættu út á flugvöll til að taka á móti því var Georgi Parvanov forseti landsins. Hann náðaði fólkið á staðnum. Það getur því væntanlega byrjað að lifa lífi sínu upp á nýtt, eftir átta ára fangavist í Líbýu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×