Innlent

Íslendingar töpuðu

MYND/Vísir
Íslendingar töpuðu síðasta leik sínum í milliriðli HM í handbolta gegn gestgjöfum Þjóðverja, 33-28. Þjóðverjar höfðu talsverða yfirburði í leiknum og leikur íslenska liðsins bar þess keim að liðið væri þegar búið að tryggja sig áfram í 8-liða úrslit. Nokkuð ljóst er að Ísland hafnar í 3. sæti milliriðilsins.

Íslenska liðið náði 1-0 forystu í leiknum en það var í fyrsta og eina sinn sem það hafði yfir í leiknum. Í stöðunni 4-4 skildu leiðir, Þjóðverjar skoruðu fimm mörk í röð og náðu forskoti sem þeir létu aldrei af hendi.

Í hálfleik var munurinn sex mörk, 17-11, en í síðari hálfleik bætti þýska liðið smátt og smátt við forskot sitt. Mest var munurinn níu mörk í stöðunni 27-18 en íslenska liðið náði að minnka muninn á lokamínútunum og laga stöðuna eilítið. Þegar uppi var staðið munaði fimm mörkum á liðunum, 33-28.

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, leyfði öllum leikmönnum liðsins að spreyta sig nokkuð jafnt í leiknum og nýtti Markús Máni Michaelsson tækifærið til hins ýtrasta og skoraði 10 mörk. Guðjón Valur Sigurðsson bætti við 7 mörkum en þeir tveir voru langatkvæðamestir hjá íslenska liðinu.

Úrslitin þýða væntanlega að Íslendingar hafna í þriðja sæti milliriðilsins og Þjóðverjar í öðru, að því gefnu að Pólverjar leggi Slóvena af velli síðar í dag. Þá hafna Pólverjar í efsta sæti en Frakkar verða að öllum líkindum í því fjórða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×