Innlent

Læknir á slysadeild varð fyrir árás

Læknir á slysadeild Landsspítalans tognaði á hendi þegar ráðist var á hann í nótt. Fjórir ungir menn voru handteknir fyrir slagsmál og læti á biðstofu slysadeildarinnar.

Slagsmál brutust út á slysadeildinni í nótt eftir að hópur fólks kom á slysadeild eftir slagsmál í bænum. Einn úr hópnum naut aðhlynningar starfsfólks spítalans en þeir sem voru á biðstofunni voru með mikil læti og héldu slagsmálin, frá því fyrr um nóttina, áfram. Fólkið sinnti engu beiðni lögreglumanns um að þeir skyldu róa sig niður heldur veittist að honum og kalla varð eftir aðstoð. Fjórir voru fluttir í fangageymslur lögreglunnar þar sem þeir voru látnir sofa úr sér.

Ráðist var á lækni í látunum með þeim afleiðingum að hann tognaði á hendi.

Ófeigur Þorgeirsson, yfirlæknir á slysadeildinni, segir starfsfólkið ekki oft verða fyrir beinum árásum frá fólki sem komi á spítalann að næturlagi þó þá sé mesta hættan. Hann segir heldur algengara að starfsfólkinu sé ógnað.

Hann segir svona læti og ólifnað hafa þekkst alla tíð því það sé einfaldlega hluti af skemmtanalífi Íslendinga og í verði að taka á með umræðu og forvörnum.

Nauðsynlegt er að öryggi starfsfólksins sé tryggt og því sé lögreglumaður á vakt allar nætur vikunnar og segir hann það skipta miklu máli.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×