Innlent

Deilt um friðlandið á Hornströndum

Bæjarstjórinn á Ísafirði vill stækka friðland Hornstranda - en hópur landeigenda vill minnka það. Eina friðunin á Hornströndum hefur verið friðun tófunnar, segir einn landeigenda.

Snörp skoðanaskipti voru á ráðstefnu á Ísafirði sem lauk í gær um aðalskipulag á Hornströndum, Snæfjallaströnd og þeim hluta Jökulfjarða sem er ekki innan friðlandsins. Bæjaryfirvöld og hluti landeigenda eru á öndverðum meiði. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, vill stækka friðlandið. Finnbogi Jónasson er uppalinn í Bolungarvík á Ströndum og á þar land. Hann vill ekki sjá stækkun friðlandsins og krefst þess að Bolungarvíkin verði skorin burt frá friðlandinu.

Halldór bæjarstjóri segir mikla áherslu lagða á samráð við landeigendur og að á endanum ráði þeir hvað gert verði. Ekki svo, að mati Finnboga, sem segir landeigendur núll og nix í þessu máli. Æðarvarpið er friðlýst og lax- og silungsveiði hefur verið mikil. Eina afrekið sem unnið hefur verið með friðlandinu, segir Finnbogi, er friðun tófunnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×