Erlent

Kabila treystir stöðu sína

Joseph Kabila, forseti Kongó, hefur náð að styrkja stöðu sína töluvert að undanförnu.
Joseph Kabila, forseti Kongó, hefur náð að styrkja stöðu sína töluvert að undanförnu. MYND/AP

Stuðningsmenn Joseph Kabila, forseta Kongó, unnu auðveldan sigur í fylkisstjórakosningum í Kongó en úrslit voru birt í dag. Stjórnarandstaðan, undir forystu Jean-Pierre Bemba, mótmælti niðurstöðununum samstundis og sagði brögð í tafli. Kosningabandalag Kabila vann sex af níu fylkisstjórakosningum og sjálfstæðir frambjóðendur unnu tvær.

Samkvæmt nýrri stjórnarskrá heldur fylkið eftir 40% af tekjum sínum, samanborið við 10-15% áður og er því eftir miklu að slægjast. Stjórnarandstæðingar sögðu allt benda til þess að atkvæði hefðu verið keypt í stórum stíl fyrir kosningarnar.

Stuðningsmenn Bemba unnu aðeins í einu fylki og töpuðu jafnvel í höfuðborginni þar sem hann nýtur mikils stuðnings. Í sumum kjördæmum fékk flokkur Bemba jafnvel ekki atkvæði frá öllum skráðum meðlimum, sem bendir til þess að flokkur hans hafi gefið eftir undanfarið.

Kabila hefur líka nýtt sér þingmeirihluta, sem flokkur hans vann í kosningum í byrjun janúar, til þess að koma sér þægilega fyrir í öllum helstu valdastöðum. Stjórnmálaskýrendur hafa hins vegar bent á að það kunni ekki góðri lukku að stýra að útiloka Bemba og stuðningsmenn hans frá völdum. Það gæti orðið til þess að auka á óstöðugleika í Kongó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×