Handbolti

Noregur burstaði Úkraínu og vann Forsetabikarinn

Norðmenn unnu Forsetabikarinn svokallaða með því að gjörsigra Úkraínumenn í úrslitaleik í dag, 32-22. Um er að ræða keppni þeirra liða sem komust ekki áfram í milliriðla á HM í Þýskalandi. Norðmenn höfnuðu þar með í 13. sæti Heimsmeistarakeppninnar.

Leikurinn var í járnum framan af en í stöðunni 13-13 skoruðu Norðmenn fjögur mörk í röð og upp frá því skildu leiðir. Úkraínumenn brotnuðu algjörlega og Norðmenn skoruðu hvert markið á fætur öðru.

Steinar Ege átti frábæran leik í marki Noregs og fundu leikmenn Úkraínu fáar leiðir framhjá honum, sérstaklega í síðari hálfleik. Kjetil Strand skoraði átta mörk fyrir Norðmenn og var markahæstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×