Erlent

Það verður svart -ef ekkert verður hvítt

Óli Tynes skrifar
Jöklar í Alaska.
Jöklar í Alaska.

Ef jöklar á Suðurskautinu bráðna mun yfirborð sjávar hækka um 60 metra. Grænlandsjökull myndi hækka yfirborðið um sjö metra. Bráðnandi jöklar munu á næstu áratugum hafa áhrif á líf hundruða milljóna manna um allan heim. Þetta segir í nýrri skýrslu 70 manna sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna.

Og aðeins eins metra hækkun á yfirborði sjávar myndi valda tjóni upp á 950 millljarða dollara og stefna 145 milljónum manna í hættu vegna flóða.

Þarna er auðvitað verið að tala um verstu hugsanlegu afleiðingar. En í skýrslunni kemur einnig fram að þótt aðeins 20 prósent af íshellunni á Grænlandi bráðnuðu og fimm prósent af Suðurskautinu, myndi yfirborð sjávar hækka um fjóra til fimm metra.

Í skýrslunni segir að fram til þessa hafi þess ekki orðið vart í miklu mæli að hlýnandi loftslag sé farið að þíða sífrera. Engu að síður eru túndrur Síberíu farnar að gefa frá sér fimm sinnum meira metangas en áður var talið.

Metangas er öflug gróðurhúsagastegund sem er bundin í miklu magni þar sem sífreri er í jörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×