Erlent

Fótboltabullan fær tugmilljóna króna sektarkröfur

Óli Tynes skrifar
Dönsku leikmennirnir verja Herbert Fandel dómara.
Dönsku leikmennirnir verja Herbert Fandel dómara.

Danska fótboltabullan sem réðst á dómarann í leik Dana og Svía á laugardag má búast við skaðabótakröfum upp á tugi milljóna króna. Hinn 29 ára gamli Dani hefur ekki verið nafngreindur enda hefur hann þegar fengið morðhótanir. Hann segist iðrast gerða sinna ákaflega. Hann hafi hagað sér eins og fífl. Djöfullinn hafi hlaupið í sig.

Maðurinn hefur beðið bæði dómarann og dönsku og sænsku þjóðina afsökunar. Þrátt fyrir iðran á hann yfir höfði sér þriggja mánaða fangelsi og háar skaðabótakröfur. Knattspyrnusamband Evrópu mun að öllum líkindum kalla aganefnd sína saman með skömmum fyrirvara.

Búist er við að á fundi hennar verði 3-0 sigur Svíþjóðar staðfestur og að danska knattspyrnusambandið fái risavaxna sekt. Sú sekt og tugmilljónakröfur til viðbótar verða væntanlega sendar fótboltabullunni dönsku. Maðurinn segir í viðtali við sænska blaðið Expressen að lífi hans sé í raun lokið. Hann geti aldrei eignast nokkurn skapaðan hlut það sem eftir sé af sinni ævi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×