Körfubolti

Rafmögnuð spenna í kvöld

Barátta Fannars Ólafssonar og Hlyns Bæringssonar nær hámarki í DHL-Höllinni í kvöld
Barátta Fannars Ólafssonar og Hlyns Bæringssonar nær hámarki í DHL-Höllinni í kvöld Mynd/Daniel

Í kvöld ræðst hvaða lið leika til úrslita í Iceland Express deild karla í körfubolta. Þá fara fram oddaleikir í undanúrslitum keppninnar þar sem KR tekur á móti Snæfelli í vesturbænum klukkan 19:15 og Njarðvík fær Grindavík í heimsókn klukkan 20. Sjónvarpsstöðin Sýn verður með beinar útsendingar frá fyrri leiknum og skiptir svo yfir til Njarðvíkur og fylgir síðari leiknum til loka.

Þetta er aðeins í fimmta sinn í 24 ára sögu úrslitakeppninnar sem báðar undanúrslitaviðureignir fara í oddaleik, en það gerðist síðast árið 2000. Alls hefur 21 einvígi í undanúrslitum farið í oddaleik og þar hafa heimaliðin unnið í 62% tilfella. Athygli vekur að útiliðin hafa þó farið með sigur af hólmi í fjórum af síðustu sex oddaleikjum og það ætti að gefa Grindvíkingum og Snæfellingum aukna von fyrir erfið verkefni í kvöld.

Talnaspekingurinn og körfuboltasérfræðingurinn Óskar Ófeigur Jónsson á Fréttablaðinu hefur tekið saman skemmtilega upphitun fyrir leiki kvöldsins á vef Körfuknattleikssambandsins og hana má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×