Viðskipti erlent

1,9 prósenta verðbólga á evrusvæðinu

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans. Mynd/AFP

Verðbólga mældist 1,9 prósent á ársgrundvelli á evrusvæðinu í desember, samkvæmt bráðabirgðatölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er 0,1 prósentustiga hækkun á milli mánaða en í takt við væntingar markaðsaðila.

Greiningardeild Landsbankans segir í Vegvísi sínum í dag að verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu séu rétt undir 2 prósentum og hefur bankanum tekist vel að halda verðbólgu í skefjum á evrusvæðinu. Verðbólgan hafi hæst farið í 2,5 prósent um mitt síðasta ár en lækkað síðan þá og verið rétt undir 2 prósentum undanfarna mánuði.

Lægri orkukostnaður og sterk staða evrunnar gagnvart Bandaríkjadal hafa hjálpað til við að halda verðbólgu lágri, að sögn deildarinnar.

Stýrivextir evrópska seðlabankans standa nú í 3,5 prósentum sem er hæsta gildi þeirra í fimm ár og er ekki útilokað að þeir verði hækkaðir meira, að mati Bloomberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×