Innlent

Tveggja ára hætt komin í sundlaug

Óli Tynes skrifar

Tveggja ára stúlkubarn var hætt komið í sundlaug Íþróttamiðstöðvarinnar að Lágafelli í Mosfellsbæ, í gærkvöldi. Stúlkan var þar ásamt móður sinni og eldri systur. Hún var að leika sér í vatnsrennibraut laugarinnar og kom ekki úr kafi eftir eina ferðina.

Sundlaugargestur sá til hennar og dreif hana upp á bakkann, en þá var hún hætt að anda. Starfsmaður íþróttamiðstöðvarinnar kom þá á vettvang og hóf lífgunartilraunir. Um leið var hringt eftir sjúkrabíl. Lífgunartilraunirnar báru skjótan árangur og var telpan komin með meðvitund og farin að háskæla þegar sjúkraliðar komu á vettvang.

Til að hafa varann á var farið með hana til rannsóknar á barnaspítala Hringsins þaðan sem hún var útskrifuð í gærkvöldi. Jóhanna Gunnarsdóttir, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar sagði í samtali við fréttastofuna í morgun að full gæsla væri jafnan við sundlaugina og að starfsfólkið væri þjálfað í neyðarhjálp. Meðal annars að lífga úr dauðadái.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×