Innlent

Stefna í loftlagsmálum kynnt á þingi í dag

Ríkisstjórn Íslands hefur markað skýra stefnu í loftslagsmálum. Stefnan verður kynnt á Alþingi í dag.

Nokkrir ráðherrar í ríkistjórninni hittust á fundi í gærkvöldi, þar á meðal Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra. Þar mun hafa verið rætt um stefnu Íslands um loftslagsmál en umhverfisráðherra er á leið til Bali um helgina þar sem hafin er ný samningalota um þau mál.

Meðal annars á að ræða um frekari niðurskurð á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Eins og menn þekkja hefur Ísland verið með sérákvæði við Kyoto-bókunina, eins og raunar fleiri ríki, sem heimilar Íslandi meiri útblástur en flestum öðrum ríkjum.

Umhverfisráðherra hefur ekki verið hlynnt því að Ísland fái aftur slíka undanþágu þegar Kyoto-bókunin rennur sitt skeið. Fyrir því hefur forsætisráðherra hins vegar talað.

Þegar Þórunn var innt eftir því hvort niðurstaða hefði náðst um stefnu Íslands svaraði hún eftir ríkisstjórnarfund í morgun að fréttamenn yrðu að mæta niður í þing klukkan hálftvö. Þar ætlaði hún að kynna stefnu ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×