Innlent

Halli á SÁÁ

Tæplega hundrað milljóna króna halli var á rekstri SÁÁ á síðasta ári. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, treystir því að stjórnvöld bregðist við og hefur enga trú á því að ríkið ætli að setja SÁÁ á hausinn.

Endurskoðaður rekstrarreikningur Ríkisendurskoðunar fyrir Vog, Staðarfell, Vík og göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri sýnir 98 milljón króna halla á síðasta ári. Þessi rekstur er á sér kennitölu og óháður öðrum rekstri SÁÁ. Þórarinn Tyrfingsson segir framlag heilbrigðisráðuneytisins fyrir árið 2006 vera 40 milljónum króna minna en árið 2005 á verðlagi í janúar 2007. "Það er augljóst að við getum ekki borið svo mikinn halla svo að það verður annaðhvort að koma til, meira fjármagn inn í meðferðina okkar frá heilbrigðisráðuneytinu eða við verðum að draga saman," segir Þórarinn.

Þórarinn á ekki von á öðru en að ríkisvaldið bregðist við þessum halla. "Já, ég geri bara ráð fyrir því. Þegar fólk sér hvernig þetta lítur út þá muni það bregðast við því og leysa þetta fljótt og vel. Ég hef enga trú á því að ríkið ætli að setja SÁÁ á hausinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×