Viðskipti erlent

Bréf China Life hækkuðu um rúm 100 prósent

Úr kauphöllinni í Sjanghæ.
Úr kauphöllinni í Sjanghæ. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa í kínverska tryggingafélaginu China Life hækkaði um 106,25 prósent í kauphöllinni í Sjanghæ í dag. Þetta var fyrsti viðskiptadagurinn með bréf í félaginu í kauphöllinni sem við lokun markaða telst til annars stærsta tryggingafélags í heimi að markaðsvirði. Lokagengi bréfanna er langt yfir væntingum en greinendur bjuggust í besta falli við 60 prósenta hækkun á gengi bréfanna.

China Life er stærsta tryggingfélag Kína og skráð bæði í kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum og í Hong Kong. Þegar almennt hlutafjárútboð var haldið í félaginu undir lok síðasta árs var 30-föld umframeftirspurn eftir bréfum í félaginu og söfnuðust 28,32 milljarðar júana eða 256 milljarðar íslenskrar króna.

Útboðsgengi í China Life í kauphöllinni í Sjanghæ nam 18,88 júönum á hlut við opnun markaðarins. Gengið sveiflaðist nokkuð í viðskiptum dagsins áður en það lokaði í 38.94 júönum sem jafngildir 106,25 prósenta hækkun. Miðað við lokagengi dagsins er China Life orðið næststærsta tryggingafélag í heimi að markaðsvirði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×