Erlent

Volkswagen bifreið Páfa til sölu

Volkswagen Golf bifreið sem einu sinni var í eigu Benedikts Páfa er nú til sölu. Hægt er að bjóða í bílinn á uppboðsvefnum eBay. Hagnaður af sölunni mun renna til góðgerðarmála.

Nú hafa tilboð náð rúmum tíu milljónum, en uppboðið rennur út næstkomandi þriðjudag. Á fréttavef Ananova kemur fram að upphaflega hafi bíllinn kostað tæpar 900 þúsund krónur.

Páfi átti bílinn þegar hann gengdi stöðu kardinála í Þýskalandi. Einkaritari páfa keypti bílinn fyrir hann frá bílasala í Siegen árið 1999. Hann seldi bílinn umboðinu aftur árið 2004.

Árið 2005 seldi 23ja ára gamall nemandi bílinn á eBay. Þá keypti net-spilavíti bílinn á rúmar 12 milljónir íslenskra króna.

Þegar nemandinn seldi bílinn til spilavítisins, lét hann hluta söluverðsins renna til góðgerðarmála.

Spilavítið hefur notað bílinn í auglýsingaskyni. En nú vilja þeir afla fjár fyrir bresk mannúðarsamtök.

Bílnum hefur ekki verið ekið síðan spilavítið keypti hann. Á eBay er honum lýst sem gráum Volkswagen Golf, með handbók.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×