Erlent

Fagnar ákvörðun Nóbelsnefndarinnar

Guðjón Helgason skrifar

Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, fagnar ákvörðun Nóbelsnefndarinnar að veita Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, og alþjóðlegri nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál friðarverðlaun Nóbels þetta árið. Verðlaunin fá Gore og nefndin fyrir framlag sitt í loftlagsmálum.

Tilkynnt var um hver hreppti verðlaunin þetta árið í Ósló í Noregi í morgun. Verðlaunaféð er jafnvirði níutíu milljóna króna og skiptist jafnt milli Gore og nefndarinnar. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Ósló tíunda desember næstkomandi.

Aðrir sem komu til greina í valinu á friðarverðlaunahafanum þetta árið voru Evrópusambandið, Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands, og pólska konan Irena Sendler sem bjargaði gyðingabörnum í síðari heimstyrjöld.

Í áliti nóbelsnefndarinnar segir að Gore og nefnd Sameinuðu þjóðanna fái verðlaunin fyrir að auka við þekkingu manna um hvaða áhrif verk þeirra hafi á loftslagsbreytingar. Gore hafi vakið athygli á vandanum með ýsmum hætti - meðal annars með kvikmyndinni Óþægilegur sannleikur sem var valin besta heimildamyndin á Óskarsverðlaunahátíðinni fyrr á þessu ári.

Gore segir í yfirlýsingu að hann sé hrærður. Hann ætlar að gefa allt verðlaunafé sitt til baráttusamtaka gegn loftslagsbreytingum.

Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var heiðursgestur á Umhverfisþingi í Reykjavík í morgun. Hann segir þetta merkan dag fyrir Sameinuðu þjóðirnar, Al Gore og ekki síst þau öfl í heiminum sem hafi tekið höndum saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Margir vilja Al Gore í forsetaframboð á næsta ári en eins og flestir vita fékk hann ekki lyklana að Hvíta húsinu eftir kosningarnar 2000. Hópur áhugasamra um framboð hans hefur verið stofnaður og birti heilsíðu auglýsingu í New York Times í fyrradag til að hvetja hann í slaginn. Sú barátta fær nú án efa byr undir báða vængi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×