Erlent

Punxsutawney Phil sá ekki skuggann sinn

Punxsutawney Phil sá ekki skuggann sinn í morgun og því búast íbúar Punxsutawney við því að vorið komi snemma í ár.
Punxsutawney Phil sá ekki skuggann sinn í morgun og því búast íbúar Punxsutawney við því að vorið komi snemma í ár. MYND/AP
Múrmeldýrið Punxsutawney Phil sá ekki skuggann sinn þegar það var tekið úr búri sínu í bænum Punxsutawney í Pennsylvaníu ríki í Bandaríkjunum í dag. Það táknar að vorið eigi eftir að koma snemma.

Þýskir innflytjendur í bænum komu með siðinn og var fyrsta hátíðin haldin árið 1886. Síðan þá hefur múrmeldýrið Phil séð skuggann sinn í 96 skipti. Þetta var aðeins í 15 skiptið sem Phil sér ekki skuggann sinn.

Mikil hátíðahöld voru í dag í tengslum við hátíðina og talið er að 15 þúsund manns hafi sótt hana. Flugeldum var skotið á loft og Pennsylvaníupolki spilaður.

Hátíðahöldin í kringum múrmeldýrið voru gerð ódauðleg í kvikmyndinni „Groundhog Day" en í henni lék Bill Murray fréttamann sem kom til bæjarins til þess að segja frá spá Phils. Dagurinn endurtók sig síðan aftur og aftur fréttamanninum til mismikillar ánægju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×