Erlent

Olíufyrirtæki reyna að sverta loftslagsskýrslu

Frá fundinum í París í dag þegar skýrslan var kynnt.
Frá fundinum í París í dag þegar skýrslan var kynnt. MYND/AP

Samtök sem eru styrkt af bandaríska olíufyrirtækinu Exxon Mobil buðu vísindamönnum og hagfræðingum háar greiðslur til þess að gagnrýna skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna um ástandið í loftslagsmálum í heiminum. Skýrslan kom út í París í dag.

Boðin komu frá samtökunum American Enterprise Institute (AEI). Þau eru styrkt af bandaríska olíurisanum Exxon Mobil, sem nýverið skýrði frá metgróða, og tengjast stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Boðin voru send til vísindamanna í Bretlandi, Bandaríkjum og annars staðar. Í þeim stóð að fullyrðingar skýrslunnar væru ekki byggðar á vísindalegum grunni. Vísindamenn segja að þetta sé aumkunarverð tilraun til þess að nýta vísindi í þágu stjórnmála.

Niðurstaða skýrslunnar, eins og spáð hafði verið, var að loftslagsbreytingar undanfarinna áratuga væru af manna völdum. Rajendra Pachauri forstöðumaður nefndarinnar segir skýrsluna þá ítarlegustu hingað til um loftlagsmál. Í skýrslunni er því meðal annars spáð að sjávarborð hækki um allt að 58 sentímetra á þessari öld.

Vefsíða breska dagblaðsins Guardian segir frá þessu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×