Erlent

Listar yfir kynferðisbrotamenn í Bretlandi og Bandaríkjunum

Yfirvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum halda úti ítarlegum og uppfærðum listum yfir dæmda kynferðisbrotamenn í löndunum tveimur. Listar frá hverju fylki fyrir sig í Bandaríkjunum eru aðgengilegir á netinu og geta þarlendir notað þá til að kanna hvort dæmdir kynferðisbrotamenn eru búsettir í næsta nágrenni við þá.

Bresk yfirvöld hófu að halda skrá yfir kynferðisbrotamenn fyrir áratug. Allir dæmdir kynferðisbrotamenn í Bretlandi þurfa að skrá sig á listann, geri þeir það ekki eiga þeir yfir höfði sér fimm ára fangelsi og sekt. Tveggja og hálfs árs dómur eða þyngri þýðir að kynferðisbrotamaður fer á listann fyrir lífstíð. Vægari dómur þýðir skráningu í sjö til tíu ár. Lögregla getur bannað mönnum af listanum að flytja í barnmörg hverfi í að minnsta kosti fimm ár eftir að þeir ljúka afplánun. Listinn er ekki aðgengilegur almenningi þó að fjölmiðlar þar hafi reynt að fá því breytt og jafnvel birt nöfn manna af honum í þeim tilgangi.

Í Bandaríkjunum var lögfest að almenningur hefði takmarkaðan aðgang að lista yfir þarlenda kynferðisbrotamenn og eru þeir aðgengilegir á netinu. Það voru foreldrar Megan Kanka sem fengu lögin í gegn í heimafylki sínu. Lögin heita eftir Megan sem var sjö ára þegar kynferðisbrotamaður myrti hana árið 1994. Bill Clinton, þáverandi forseti, staðfesti lögin tveimur árum síðar og gilda þau því í öllum fylkjum. Samkvæmt lögunum er lögreglu í hverju fylki gert að upplýsa íbúa þegar dæmdur kynferðisbrotamaður flytur í nágrenni við þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×