Innlent

Launaseðlar í tveimur myntum spennandi kostur

Ólafur Darri segir menn hafa rætt það á vettvangi ASÍ að taka upp í kjarasamningum heimild um að fólk fái hluta launa í erlendum gjaldmiðli.
Ólafur Darri segir menn hafa rætt það á vettvangi ASÍ að taka upp í kjarasamningum heimild um að fólk fái hluta launa í erlendum gjaldmiðli.
Alþýðusamband Íslands skoðar þann möguleika að taka upp í kjarasamningum heimild til að launþegar fái hluta launa sinna í erlendum gjaldmiðli. Með því móti gætu launamenn nýtt sér langtum hagstæðari húsnæðislán í útlendri mynt og lágmarkað gengisáhættu.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær borgar fólk sem tekur erlent húsnæðislán til 40 ára upp á 20 milljónir króna allt að 25 milljónum minna en sá sem tekur verðtryggt íslenskt krónulán. Langflestir taka þó verðtryggð krónulán. Gengisáhættan er nefnilega gríðarleg, segir Ólafur Darri Andrason hagfræðingur hjá ASÍ og rekur dæmi. Krónan hefur fallið um 25% síðan í desember 2005. Það þýðir að sá sem hefði tekið 20 milljón króna lán í erlendri mynt á þeim tímapunkti - sæti nú uppi með 25% hærra lán. Og slíkum skammtímasveiflum eiga einstaklingar erfitt með að standa undir þótt heildargreiðslan sé langtum lægri. "Einstaklingur sem er búinn að skuldsetja sig mjög mikið er kannski ekki í stakk búinn til að mæta miklum sveiflum, þannig að afborganir hækki um tugi prósenta á örfáum mánuðum."

Málið snýr öðruvísi við þeim sem geta tekið hluta af launum sínum í erlendri mynt. Fyrir þá einstaklingar er mjög einfalt, segir Ólafur Darri, að taka erlend húsnæðislán ef launin í erlendu myntinni duga fyrir afborgunum. "Þá eru þeir búnir að lágmarka gengisáhættuna."

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að ASÍ taki það upp í kjarasamningum að launamenn fái hluta af launum sínum í erlendri mynt, segir Ólafur Darri: "Ég held það hljóti að vera spennandi kostur að skoða það."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×