Erlent

Prinsessan er útsendari helvítis

Óli Tynes skrifar
Marta Lovísa.
Marta Lovísa.

Þekktur norskur prestur hefur ráðst heiftarlega á Mörtu Lovísu prinsessu eftir að hún upplýsti að hún gæti talað við engla og dýr, og stofnaði nýaldar-skóla ásamt vinkonu sinni. Jan Hanvold sem er frægur sjónvarpsprestur segir að prinsessan sé útsendari frá helvíti.

Opinberun Mörtu Lovísu hefur vakið athygli um allan heim, ekki síst í heimalandinu. Þar sýnist sitt hverjum. Marta Lovísa hefur afsalað sér sínum konunglegu titlum og er því í fullum rétti til þess að stofna sitt eigið fyrirtæki. Kristin trú á sér hinsvegar mjög sterkar rætur í Noregi og þetta hefur valdið nokkru uppnámi.

Konungsfjölskyldan hefur lýst því yfir að hún tjái sig ekki um einkamál Mörtu Lovísu. Það eru hinsvegar margir aðrir tilbúnir til þess að gera. Meðal annars Jan Hanvold sem segir; "Marta Lovísa er útsendari frá helvíti. Allir sem boða aðra trú eru fordæmdir. Þeir eru ekki af Guði, þeir eru frá helvíti, úr neðstu myrkrum."

Jan Hanvold biður nú fyrir Mörtu Lovísu svo hún losni við djöfla sína. "Það er trúfrelsi í landinu svo fólk má trúa því sem það vill. Sem prestur er það hinsvegar mitt hlutverk að vernda hina kristnu. Ritningin bannar okkur að tala við engla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×