Innlent

Íkveikja í Vestmannaeyjum

Mynd/Óskar P. Friðriksson

Í dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum kemur fram að um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var tilkynnt um að eldur væri í búnaði þjóðhátíðarnefndar sem geymdur er á svæði þjónustumiðstöðvar bæjarins.

Var slökkviliðið ræst út og gekk greiðlega að slökkva eldinn, sem ekki var mikill. Talið er að kveikt hafi verið í vörubrettum sem þarna voru og eldurinn borist í þjóðhátíðarbúnaðinn, en ekki er vitað hver var að verki.

Síðar um kvöldið eða í nótt var svo gerð tilraun til að brjótast inn í stóra sviðið og var hurðin eitthvað skemmd við þá tilraun.

Ef einhver telur sig hafa upplýsingar um hver hafi verið þar að verki eða séð til mannaferða þarna um kvöldmatarleytið er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×