Erlent

Úransmyglarar handteknir

Óli Tynes skrifar
Óttast er að hryðjuverkamenn komist yfir smygluð geislavirk efni.
Óttast er að hryðjuverkamenn komist yfir smygluð geislavirk efni.

Lögreglan í Slóvakíu og Ungverjalandi handtók í dag þrjá menn og gerði upptækt eitt kíló af geislavirku efni sem fjölmiðlar segja að sé auðgað úran. Auðgað úran er meðal annars notað til þess að smíða kjarnorkusprengjur.

Mennirnir voru handteknir á sameiginlegum landamærum ríkjanna og skammt frá landamærunum að Úkraínu. Talsmaður lögreglunnar í Slóvakíu sagði að hægt hefði verið að selja þetta efni fyrir minnst eina milljón dollara.

Mjög oft er reynt að smygla geislavirkum efnum frá fyrrum Sovétlýðveldum eins og Úkraínu.

Alþjóða kjarnorkumálastofnunin hefur skrá 1.250 slík tilfellki frá árinu 1994. Stærsta sendingin sem fundist hefur voru 2,7 kíló af auðguðu úrani sem voru gerð upptæk í Prag fyrir nokkrum árum.

Á vesturlöndum hafa menn miklar áhyggjur af því að slíkar sendingar lendi í höndum hryðjuverkamanna eða útlagaríkja eins og Norður-Kóreu og Írans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×