Innlent

Jólatrén hirt fram á föstudag

Hátt í áttatíu tonn af jólatrjám fara upp á pallbíla framkvæmdasviðs borgarinnar þessa vikuna. Starfsmenn borgarinnar verða að fram á föstudag við að fjarlægja jólatrén.

Það var nóg að gera hjá þeim starfsmönnum borgarinnar við að hirða þessar leifar jólanna upp af götum borgarinnar í dag enda hafa sjálfsagt margir brett upp ermar í gær og tekið niður allt sem minnir á jólin. Fólk er beðið um að setja jólatrén á áberandi stað við lóðarmörk og ganga frá þeim þannig að sem minnstar líkur séu á að þau fjúki. Önnur sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á svipaða þjónustu.

En vilji borgarbúar tryggja það að tréð fjúki ekki um hverfið á næstu vikum er vissara að koma því út fyrir föstudag. Þeir sem sjá á eftir trénu út á götu geta huggað sig við að trén eru endurnýtt, þau eru möluð niður og síðan er þeim dreift yfir urðunarstaði Sorpu þar sem þau verða að moldu á fáeinum árum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×