Erlent

16 fallið á Gaza

Að minnsta kosti 16 hafa týnt lífi og fjölmargir særst í átökum milli Hamas og Fatah-liða á Gaza-svæðinu síðasta sólahring. Meðal látinna er tveggja ára drengur. Þetta eru einhver verstu átök sem blossað hafa upp milli fylkinganna í marga mánuði.

Harðir bardagar hafa geisað á Gaza-svæðinu síðan aðfaranótt föstudags. Minnst 16 liggja í valnum, þar á meðal almennir borgarar. Átökin urðu hörðust í Jebaliya flóttamannabúðum í gær. Þá umkringdu byssumenn úr hópi Hamas-liða heimili Fatah-liða. Hann var sagður hafa myrt tvo Hamas-liða. Umsátur varði í nokkrar klukkustundi - eða allt þar til ráðist var inn í húsið og til skotbardaga kom. Tveir féllu þar og voru 19 Fatah-liðar teknir höndum.

Það var svo í gærkvöldi sem leiðtogar Hamas og Fatah hvöttu liðsmenn sína til að leggja niður vopn. Við því var ekki orðið.

Til skotbardaga hefur komið víða á svæðinu í nótt og í morgun og ekkert lát virðist ætla að verða á átökunum. Skotið var á hús Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, en hann sakaði ekki.

40 Palestínumenn hafa fallið í átökum fylkinganna síðan um miðjan síðasta mánuð en friðsamlegt hafði verið að fyrripart þessarar viku. Átökin nú eru þau umfangsmestu og blóðugustu um nokkurt skeið. Forvígismenn samtakanna kenna hverjir öðrum um hafa hætt viðræðum um skipan þjóðstjórnar. Þær þreyfingar virtust á nokkru skriði þar til í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×