Viðskipti erlent

Dregur úr væntingum vestanhafs

Bandarískir neytendur eru svartsýnni en markaðsaðilar gerðu ráð fyrir.
Bandarískir neytendur eru svartsýnni en markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Mynd/AFP

Væntingavísitala neytenda í Bandaríkjunum mælist 87,3 stig í þessum mánuði samanborið við 95,2 í síðasta mánuði. Þetta er tæpum þremur stigum meiri lækkun en markaðsaðilar höfðu reiknað með. Vísitalan hefur ekki verið lægri síðan fellibylurinn Katarína reið yfir suðurströnd Bandaríkjanna í október fyrir tveimur árum.

Inn í þverrandi væntingar nú spilar hækkandi olíuverð samhliða horfum á áframhaldandi samdrætti á fasteignamarkaði í skugga verra aðgengis að lánsfé nú en áður, að sögn fréttaveitu Bloomberg.

Bloomberg hefur eftir markaðsaðilum að þetta geti verið vísbending um að draga muni úr einkaneyslu í Bandaríkjunum allt fram á næsta ár. Þetta gæti þrýst á að bandaríski seðlabankinn verði að lækka stýrivexti frekar. Gengi það eftir væri það þvert á yfirlýsingar seðlabankans, að sögn Bloomberg.

Niðurstöðurnar virðast ekki hafa haft mikil áhrif á gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum, sem lækkaði talsvert í gær. Að sögn bandarískra fjölmiðla vegur þyngra að Citigroup, einn stærsti banki landsins, tryggði sér fjármögnun með sölu á 4,9 prósenta hlut til fjárfestingasjóðs í Abu Dhabí, sem greint var frá í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×