Fótbolti

Inter tryggði sér ítalska meistaratitilinn

Leikmenn Inter fögnuðu ákaft eftir leikinn gegn Siena í dag, enda félagið orðið ítalskur meistari í knattspyrnu.
Leikmenn Inter fögnuðu ákaft eftir leikinn gegn Siena í dag, enda félagið orðið ítalskur meistari í knattspyrnu. MYND/AFP

Inter tryggði sér í dag ítalska meistaratitilinn í knattspyrnu með því að leggja Siena af velli í dag. Á sama tíma tapaði Roma fyrir Atalanta sem þýðir að liðið á ekki lengur tölfræðilega möguleika á að ná Inter að stigum. AC Milan steig stórt skref í átt að sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar með sínum fjórða sigurleik í röð.

Inter hefur haft gríðarlega yfirburði á Ítalíu í vetur og var það í raun aðeins formsatriði fyrir liðið að tryggja sér titilinn endanlega, enda löngu ljóst að Roma þyrfti nánast kraftaverk ef það ætlaði sér að ná Inter að stigum. Það var varnarmaðurinn umdeildi Marco Materazzi sem skoraði bæði mörk Inter í dag og kom annað þeirra úr vítaspyrnu.

Inter hefur hlotið 84 stig úr 33 leikjum en Roma er í 2. sæti með 68 stig eftir 33 leiki. Liðið er því afar vel að titlinum komið. Lazio er í þriðja sæti með 57 stig en Milan því fjórða með 56 stig.

Milan vann sinn fjórða sigur í röð í gærkvöldi með því að leggja Cagliari á heimavelli. Sex stigum munar nú á Milan og Empoli, sem er í fimmta sæti, þegar aðeins fimm umferðir eru eftir. Brasilíski framherjinn Ronaldo skoraði tvö af mörkum Milan í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×