Erlent

Chiracs-tímanum lokið

Mörg ár eru frá því að svo spennandi forsetakosningar hafa verið haldnar í Frakklandi, besta sönnun þess er auðvitað kjörsóknin í dag. En baráttan undanfarna mánuði hefur líka verið bæði löng og ströng.

Eflaust hafa tilfinningar Jacques Chirac verið blendnar þegar hann greiddi atkvæði í morgun því dagurinn í dag markar á ýmsan hátt endalok tólf ára langrar valdatíðar hans. Allir frambjóðendurnir tólf hafa lagt áherslu á að nýir og kraftmeiri tímar renni nú upp hér í Frakklandi. Þannig var rauði þráðurinn í baráttu Segolene Royal jafnrétti og velferð, meðal annars með því að hækka lágmarkslaun og bætur. Bayrou hefur reynt að höfða til þeirra sem eru orðnir þreyttir á áralöngum skærum hægri og vinstri manna og Sarkozy lofar að koma hjólum efnahagslífsins af stað á ný, uppræta glæpi og stöðva ólöglegan innflutning innflytjenda. Sarkozy var einmitt í eldlínunni fyrir tveimur árum sem innanríkisráðherra þegar allt logaði í óeirðum í innflytjendahverfum víða um land. Annað var upp á teningnum í dag í Clichy-Sous-Bois í París þar sem óeirðirnar blossuðu fyrst upp.

Rétt eins og annars staðar í Frakklandi var kjörsókn þar góð í dag en óvíst er hversu mörg atkvæði Sarkozy fékk þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×