Innlent

Umhverfissinnar mótmæla harðræði lögreglunnar

Mótmælendur í samtökunum Saving Iceland saka lögregluna um harðræði og tilefnislausar handtökur en fimm voru handteknir í mótmælum umhverfissinna í Reykjavík í gærkvöldi.



Hinir handteknu hafa allir verið leystir úr haldi en þeir hafa allir verið kærðir, meðal annars fyrir brot á umferðarlögum, fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og fyrir ofbeldi gegn lögreglu. Þá eru einstaklingarnir einnig kærðir fyrir að hindra lögreglu í starfi.

Lögreglan braut glugga á bíl sem fór fremstur við mótmælin í gærkvöldi þar sem ökumaður hafði læst að sér að sögn lögreglu og neitað að ræða við hana.

Aksturslag ökumannsins þótti vítavert að mati lögreglu þar sem hann ók með farþega í kerru sem bíllinn hafði í eftirdragi.

Lögreglan sagði auk þess að gríðarlegur hávaði hefði verið frá bílnum og nauðsynlegt hefði verið að slökkva á hljóðmagnara því almenningur hefði haldið neyðarlínu tepptri með umkvörtunum um hávaða.

Ökumaður bílsins var handtekinn og sakar hann lögregluna um harðræði.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan starfi eftir lögum og ekkert bendi til þess að lögreglumenn hafi farið út fyrir ramma laganna við störf sín í gærkvöldi.

Að sögn lögreglu hafði ekki fengist leyfi fyrir göngu umhverfisverndarsinna í gær. Arinbjörn Snorrason, starfandi aðalvarðstjóri hjá lögreglunni, sagði að almannahagsmunir hefðu ráðið ferð í gærkvöldi, Snorrabrautin væri ein af stofnæðum borgarinnar og hefði lögreglan viljað halda þeirri götu án tálma til að tryggja öryggi almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×