Körfubolti

Auðvelt að segja já

Mynd/Hörður

Sigurður Ingimundarson segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að halda áfram með karlalandsliðið í körfubolta þegar hann var beðinn um það. Sigurður hefur verið með liðið í fjögur ár og skrifaði undir tveggja ára framlengingu á blaðamannafundi á veitingahúsinu Carpe Diem í dag.

Sigurður segir forráðamenn körfuknattleikshreyfingarinna vinna hörðum höndum að því að bæta umhverfi landsliðsins og því hafi hann ekki þurfti að hugsa sig um lengi þegar hann var beðinn um að halda áfram með karlalandsliðið.

"Körfuboltaforystan er alltaf að setja meira púður í starfið í kring um landsliðið og það hefur gengið vel. Nú eru menn spenntir fyrir að gera enn meira," sagði Sigurður í samtali við Vísi.

"Við þurfum að setja enn meiri kraft í þetta en við höfum gert til að ná að stíga næsta skref og koma okkur í A-deildina. Það eru ekkert allt of mörg íslensk lið á topp 24 í Evrópu í sínum flokki og því er þetta auðvitað verðugt verkefni sem við eigum fyrir höndum," sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×