Innlent

Slippurinn flyst á Grundartanga

Slippurinn í Reykjavík, eitt elsta fyrirtæki borgarinnar, flyst innan tíðar á Grundartanga, og verður þá enginn slippur eftir í Reykjavík.

Stjórn Faxaflóahafna gaf í gær Stálsmiðjunni, sem rekur Slippinn, vilyrði fyrir stórri lóð þar, bæði undir skemmu og dráttarbraut. Lóðin er vestan við Járnblendiverksmiðjuna, en nær þjóðveginum.

Rúmlega eitt hundrað ár eru síðan Slippurinn var stofnaður og þótti hann forsenda þess að hægt væri að gera út stór fiskiskip frá Íslandi. Hann var því einskonar sjálfstæðistákn þjóðarinnar á sínum tíma.

Starfsemi er enn í fullum gangi, en hún þykir vera orðin fyrir væntanlegri íbúðabyggð á Mýrargötusvæðinu. Stutt er síðan Daníelsslippur, skammt vestan við Slippinn, var lagður af, en það fyrirtæki hefur fengið aðstöðu á Akranesi.

Það heyrir því brátt fortíðinni til að fólk geti séð skip á þurru landi í Reykjavík, en slík sjón hefur verið mikið aðdráttarafl erlendra ferðamanna hin síðari misseri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×