Erlent

Framkoma Írana ófyrirgefanleg

George Bush forseti Bandaríkjanna segir Írana hafa hagað sér með óafsakanlegum hætti í deilunni um bresku sjóliðanna fimmtán sem þeir hafa í haldi sínu. Á meðan saka írönsk stjórnvöld Breta um að ganga fram af hroka og eigingirni.

Níu dagar eru síðan sjóliðarnir fimmtán voru handteknir í ósum Shatt al-Arab á landamærum Írans og Íraks. Írönsk yfirvöld segja skip þeirra hafa siglt í óleyfi inn í lögsögu sína en breska ríkisstjórnin fullyrðir að sjóliðarnir hafi verið í íraskri lögsögu. George Bush, forseti Bandaríkjanna, var ómyrkur í máli þegar hann var spurður um afstöðu sína til deilunnar í gær. Hann sagði framkomu Írana með öllu ófsakanlega þar sem engar vísbendingar væru um að Bretar hefðu framið landhelgisbrot. Bush kvaðst því styðja bresku stjórnina fullkomlega og ekki yrði fallist á annað en að sjóliðarnir yrðu látnir lausir skilmálalaust. Þar vísaði forsetinn til hugmynda um að Bandaríkjamenn slepptu fimm Írönum sem þeir tóku fasta í Írak í ársbyrjun til að greiða fyrir lausn deilunnar.

Hinum megin á hnettinum skaut Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti föstum skotum á bresku stjórnina. Hann sagði framgöngu hennar órökrétta og þvert á alþjóðalög og hún einkenndist öðru fremur af hroka og eigingirni. Lítið virðist þannig þoka í þessari erfiðu deilu. Formleg bréfaskipti ríkjanna um málið eru þó jákvætt merki um að þau eigi í viðræðum en í morgun staðfesti Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans að hann hefði fengið bréf frá starfssystur sinni í Bretlandi, Margaret Beckett, og yfir það yrði farið vandlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×