Innlent

Íslenskir neytendur áhugalausir um mannréttindi og umhverfissjónarmið

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/RR

Íslendingar telja það síður mikilvægt að upplýsingar um siðferðislega afstöðu matvælaframleiðanda séu sérstaklega tilgreindar á matvælapakkningum miðað við neytendur á hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýútkominni könnun um merkingu matvæla sem Norræna ráðherranefndin fjármagnaði.

Samkvæmt könnuninni telja aðeins 39 prósent Íslendinga það mjög mikilvægt eða mikilvægt að upplýsingar um siðferðislega afstöðu matvælafyrirtækis varðandi til dæmis mannréttindi og umhverfissjónarmið séu tilgreindar á vöru. Um 26 prósent Íslendinga telja það alls ekki mikilvægt. Til samanburðar má nefna að 78 prósent Svía telja slíkar upplýsingar mjög mikilvægar eða mikilvægar, 74 prósent Dana, 59 prósent Finna og 54 prósent Norðmanna.

Almennt benda niðurstöður könnunarinnar til þess að neytendur á Norðurlöndum vilja vita hvaðan maturinn þeirra kemur. Þá vilja neytendur á Norðurlöndum einnig að innihaldslýsing sé eins skýr og mögulegt er. Upplýsingar um upprunaland eru Norrænum neytendum ofarlega í huga sérstaklega þegar um er að ræða kjöt, unna kjötvöru, ávexti og grænmeti.

Könnunin var gerð síðasta haust meðal rúmlega eitt þúsund íbúa í hverju Norðurlandanna fyrir sig. Markmiðið var að kanna þarfir neytenda, óskir og forgangsröðun varðandi merkingar og upplýsingar um matvæli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×