Innlent

Yfir fjögur þúsund hafa kosið í Reykjavík

Rúmlega fjögur þúsund manns hafa kosið utan kjörfundar í Reykjavík. Kjósendur sem fréttastofan ræddi við í dag höfðu yfirleitt löngu gert upp hug sinn varðandi þann flokk sem þeir kusu.

Það eru fimm dagar til kosninga og frambjóðendur eru um víðan völl að reyna að sannfæra kjósendur um ágæti sitt og flokka sinna, en suma er orðið of seint að sannfæra. Alþingiskosningarnar eru í raun hafnar því kjósendur geta kosið utankjörfundar hjá sýslumönnum um allt land. Í Laugardalshöllinni geta kjósendur kosið frá klukkan tíu á morgnana til klukkan tíu að kveldi.

Utankjörfundur hefur staðið yfir í Reykjavík frá því um miðjan mars en í dag var þó nokkur traffík á utankjörstað í Laugardalshöllinni. Búist er við að rúmlega tólf þúsund manns muni kjósa utan kjörfundar í Reykjavík, þar sem rúmlega 87 þúsund manns eru á kjörskrá.

Seinnipartinn í dag höfðu yfir fjögur þúsund manns kosið utankjörfundar í Reykjavík, en fólk úr öllum kjördæmum getur kosið þar eins og hjá sýslumönnum í öðrum kjördæmum. Til að geta kosið þarf að hafa náð 18 ára aldri á kjördag og getað framvísað skilríki með mynd.

Kjósendur sem fréttastofan ræddi við í Laugardalshöllinni í dag höfðu allir löngu gert upp við sig hvað þeir ætluðu að kjósa og flestir voru að kjósa sama flokk og þeir kusu síðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×