Erlent

Stærsta sprengistjarna sem sést hefur

Risastór sprengistjarna, sem er sú bjartasta sem vísindamenn hafa nokkru sinni séð, hefur leitt til þess að vísindamenn velta nú fyrir sér hvort að möguleiki sé á því að slík stjarna eigi eftir að sjást mun nær jörðu á næstunni. Vísindamenn hjá NASA skýrðu frá því í dag að þeir hefðu séð sprengistjörnuna. Fyrst var tekið eftir henni síðastliðið haust og hafa þeir fylgst með henni síðan.

Vísindamennirnir telja að hún hafi skinið fimm sinnum sterkar en nokkur þeirra sprengistjarna sem áður hafa uppgötvast. „Í þessari sprengistjörnu féll ekki bara kjarni hennar saman heldur sprakk hann gjörsamlega í tætlur. Allt efni hans hvarf út í geim." sögðu vísindamennirnir á fréttamannafundinum. Það var háskólanemandi í Texas sem tók fyrst eftir stjörnunni.

Sprengistjarnan hefur leitt til þess að vísindamennirnir eru farnir að velta fyrir sér  hvort að stjarna sem er mun nær jörðinni, Chandra, eigi eftir að springa á sama hátt og hin. Þeir báru saman magn röntgengeisla frá stjörnunum tveimur og komust að því að það var mjög svipað. Chandra er þó ekki það nálægt jörðinni að það hún geti haft áhrif á hana þegar hún springur. Vísindamennirnir telja þó líklegt að fólk sem býr á suðurhveli jarðarinnar gæti séð sprenginguna berum augum. Þá sögðu þeir einnig að Chandra gæti sprungið á næstu dögum - eða eftir 50 þúsund ár.

Í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni má sjá tölvugert myndbrot af því hvernig sprengingin varð. Síðan er sýnt frá fréttamannafundinum sem vísindamennirnir héldu í dag og sprengingin útskýrð. Myndskeiðið er á ensku og án texta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×