Erlent

Sarkozy með forskot á Royal

Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægrimanna, og Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, berjast um franska forsetaembættið í seinni umferð kosninga þar í landi eftir hálfan mánuð. Kosningabarátta þeirra er þegar hafin. Samkvæmt nýjum skoðanakönnunum hefur Sarkozy allt að sex prósentustiga forskot á Royal.

Þátttaka í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi í gær var með mesta móti, nærri áttatíu og fimm prósent. Þau Sarkozy og Royal fengu flest atkvæði eða þrjátíu og eitt komma eitt prósent og tuttugu og fimm komma átta prósent. Þau berjast því um embættið í seinni umferðinni þann sjötta maí næstkomandi. Alls voru tólf í framboði í gær. Næstur á eftir Sarkozy og Royal kom miðjumaðurinn Francois Bayrou með átján og hálft prósent atkvæða. Þá hægri öfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen með tíu og hálft prósent. Sá síðastnefndi náði óvænt í aðra umferð gegn Jacques Chirac, fráfarandi forseta, fyrir fimm árum og gerði hann sér vonir um að ná jafn góðum árangri og 2002. Kannanir bentu þó ekki til þess.

Kosningabarátta Sarkozy og Royal er þegar hafin og berjast þau nú um atkvæði þeirra sem studdu hina frambjóðendurna í gær.

Samkvæmt skoðanakönnunum sem birtar voru í gærkvöldi eftir að úrslit lágu fyrir fengju Sarkozy á bilinu fimmtíu og tvö til fimmtíu og fjögur prósent atkvæða í síðari umferð kosninganna en Segolene Royal fjörutíu og sex til fjörutíu og átta prósent ef kosið væri nú. Möguleikar Royal á að sigra Sarkozy velta mikið á stuðningi Bayrou en á miðvikudaginn ætlar hann að greina frá því hvorn frambjóðandann hann styðji. Sjónvarpskappræður Sarkozy og Royal verða annan maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×