Erlent

Ísraelskir skriðdrekar komnir inn á Gaza

Óli Tynes skrifar

Ísraelska ríkisstjórnin ákvað í dag að herða hernaðaraðgerðir á Gaza ströndinni til þess að stöðva eldflaugaárásir Hamas liða á Ísrael. Palestínumenn óttast að þetta þýði að ísraelski herinn ráðist inn á svæðið, með fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Auk þess að herja á Fatah hreyfingu Mahmouds Abbas forseta heimastjórnar Palestínumanna, hafa liðsmenn Hamas undanfarið skotið fjölmörgum eldflaugum inn í Ísrael. Þeir hafa virt að vettugi allar beiðnir um að hætta, meðal annars frá forsetanum.

Ísraelar hafa varað við því að ef árásunum linnti ekki myndu þeir grípa til aðgerða. Þeir hafa raunar þegar fellt nokkra Palestínumenn með eldflaugaárásum úr lofti.

Það hefur nú verið ákveðið í ríkisstjórn landsins að herða aðgerðir. Fregnir hafa borist af því að fjölmargir ísraelskir skriðdrekar séu komnir rétt innfyrir landamæri Gaza. Palestínumenn óttast að það sé byrjunin á stórfelldri árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×