Innlent

Stuðningur vex við Álver á Húsavík

Nýleg skoðanakönnun, sem Capacent Gallup hefur gert á Norðausturlandi, leiðir í ljós að 69,5% íbúa eru hlynnt byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Yfir 80% telja að bygging álvers myndi hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði til lengri tíma á Norðurlandi. Niðurstaðan er byggð á svörum rúmlega 1500 manns á aldrinum 16-75 ára.

Í könnun sem gerð var í desember sl. mældist stuðningur við álvershugmyndir á Bakka 58,2% á Norðausturlandi. Á Húsavík mælist stuðningurinn í nýju könnuninni 83% en var tæp 76% í desemberkönnuninni.

Alls reyndust 19,9% andvíg áformum um álver á Bakka í könnuninni nú, en voru 27,7% í í desember. Hlutfall hlutlausra í þessari nýju könnun var 10,6% en reyndist 14,1% í desemberkönnun Capacent Gallup. Þegar eingöngu er tekið tillit til viðhorfa Húsvíkinga kemur í ljós að 10,3% þeirra eru nú andvíg álversáformum en hlutfallið var 17,9% í desember.

Vaxandi meirihluti svarenda er jákvæður í garð Alcoa Fjarðaáls í könnuninni á Norðausturlandi. Þannig svöruðu 67% því til að þeir væru frekar eða mjög jákvæðir í garð fyrirtækisins. Sambærilegt hlutfall í desemberkönnuninni reyndist 58,7%. Athygli vekur að einungis 15,3% íbúa á Norðausturlandi eru neikvæðir í garð fyrirtækisins en voru 19,5% í síðustu könnun.

Í annarri könnun Capacent Gallup, sem náði til íbúa á landinu öllu, reyndust 57,4% svarenda vera jákvæð í garð Alcoa Fjarðaáls. Þetta er nokkru hærra hlufall en í sambærilegri könnun frá því í desember í fyrra þegar 50% lýstu sig jákvæð í garð fyrirtækisins. Sama könnun leiðir einnig í ljós aukinn stuðning á meðal landsmanna við álversframkvæmdir á Reyðarfirði eða 56,4% nú á móti 51% í desemberkönnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×