Erlent

Litvinenko sakaður um fjárkúgun

Litvinenko á dánarbeði sínu.
Litvinenko á dánarbeði sínu. MYND/AP

Alexander Litvinenko, fyrrum njósnari sem var eitrað fyrir í Lundúnum í nóvember síðastliðnum, ætlaði sér að fjárkúga rússneskan auðkýfing sem búsettur er í Lundúnum. Þetta fullyrti vinkona hans í samtali við fréttaþáttinn sextíu mínútur en hann verður sýndur í Bandaríkjunum á sunnudaginn kemur.

Konan fullyrti að Litvinenko hefði verið að vinna að því að undirbúa fjárkúgun á ríkum rússneskum kaupsýslumanni til þess að verða sér úti um aukatekjur. Hún tók líka fram að Litvinenko hefði fundist það allt í lagi þar sem viðkomandi auðkýfingur hefði tengsl við Vladimir Putin, forseta Rússlands. Eiginkona Litvinenko neitaði þó ásökunum og sagði að maður hennar væri ekki fær um slíkt. Hugsanlegt er því að einhver annar en Pútin hafi staðið á bak við morðið.

Konan vildi ekki segja nafnið á manninum sem átti að fjárkúga en sagði að það hefði ekki verið Boris Berezovsky, sem var einlægur stuðningsmaður Litvinenko, en Berezovsky hafði mánuðina á undan dregið úr fjárstuðningi sínum við Litvinenko.

Berezovsky sagði síðan í sama þætti að það hefði verið Pútin sem væri á bak við morðið á Litvinenko. Eiginkona Litvinenko tók þó ekki jafn djúpt í árinni og sagði að morðið hefði ekki getað átt sér stað án vitneskju Vladimirs Pútin, forseta Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×